Fyrsti mánuðurinn í brugghúsinu

Nú er ég búinn að vinna í Ölvisholti brugghúsi í rétt rúman mánuð. Á þessum tíma hef ég lært heilan helling um framleiðslu bjórs á skala sem er 100-200 sinnum stærri en heima hjá mér.

Væntingar ≠ raunveruleiki

Það fyrsta sem ég lærði var að þær væntingar sem ég hafði um að vinna í brugghúsi voru kannski helst of vongóðar. Ég hafði búist við algerri sjálfstýringu á öllum stigum framleiðsluferlisins, að mæta bara og ýta á takka, mæla hitt og þetta, slaka síðan á meðan með góðan bjór mér við hönd. Raunveruleikinn var svolítið (allt) öðruvísi!

reality-check

Fyrsta daginn minn settum við Skaða á flöskur. Samkvæmt Elvari, bruggmeistaranum, voru þetta „bara“ 1400 lítrar, sem átti að vera „létt“. 1400 lítrar er  „bara“ 70 sinnum meira magn en ég geri vanalega heima!

Bjórinn liggur í svokölluðum Brite Beer Tank. Þar hefur hann þegar verið kolsýrður upp að réttu kolsýrumagni og kældur. Þaðan er honum ýtt (já, ýtt með kolsýruþrýstingi) í gegnum gerilsneyðingu og þaðan í átöppunarvélina. Átöppunarvélin er Ítölsk og hefur persónuleika sinn þaðan. Hana þarf stöðugt að mata flöskum (ca, 2-300 í einu) og töppum. Hún elskar að setja tappana vitlaust á flöskurnar (þegar hún setur tappa á þær yfir höfuð!), stífla tapparennuna og alls konar önnur skemmtilegheit. Mitt hlutverk var að taka flöskurnar af færibandinu og raða í kippuhaldara og í kassa og þaðan á bretti. Ég komst fljótt að því að tvær flöskur í einu myndi ekki ganga og að ég þyrfti líklega ekki að mæta í ræktina aftur. Þetta er virkilega góð þjálfun fyrir tví+þríhöfðann, upp/niður nokkur þúsund sinnum! Eftir daginn var alveg búinn á því.

Þetta var því nett sjokk sem ég fékk á fyrsta deginum mínum. Í fyrsta lagi er ekki bara bruggað í brugghúsum og í öðru lagi þarf töluvert af „manual labor“.

Tilbúnir bakkar

Örlítið meira magn en maður er vanur heima! Hver ætli þurfi að setja allt þetta saman?

Tómar flöskur

Hreinar, sterílar flöskur bíða eftir að fyllast af bjór og fá á sig tappa. Í bakgrunni sést átöppunarvélin Ítalska.

Alveg eins og heima (bara stærra)

Fyrstu dagana fannst mér eins og ég vissi ekkert hvað væri í gangi. Með tímanum komst ég samt að því að ég vissi það bara víst! Í rauninni er ferlið í brugghúsinu alveg eins og ferlið heima. Helsti munurinn er stærðarskalinn, notað er meira af byggi, humlum, vatni, geri og svo framvegis. Lagnirnar eru stærri og ýmis skref taka því mun lengri tíma. T.d. tekur tilfærslan úr meskikerinu yfir í suðutankinn um klukkutíma og sama tíma tekur að flytja tilbúna virtinn í gerjunartankinn. Eftir að hafa lært á tækin og tólin líður mér bara alveg eins og ég sé að brugga heima.

Bruggrýmið

Hérna sjást 6×3500 lítra gerjunartankar (hægri og í miðjunni innst) 1×3500 lítra Brite tankur (innst til vinstri) og suðupotturinn 2000 lítra (fremst til vinstri). Á þessum tímapunkti erum við að undirbúa áfyllingu á Key Kegs.

Rafha+Ölvisholt

Hérna sést stærðarmunurinn á Rafha brugg-þvottavélinni minni (40 lítra one vessel) og græjunum sem Ölvisholt hefur. Vinstra megin er meskikerið sem tekur ca. 1800 lítra og hægra meginn er suðupotturinn sem tekur ca. 2000 lítra.

Settur í skammarkrókinn! (inn í suðupottinn)

Þetta er búinn að vera mjög skemmtilegur mánuður og góð tilbreyting frá skrifstofunni. Þrátt fyrir að vera erfiðari vinna líkamlega séð en ég hélt í upphafi er svo margt sem bætir upp fyrir það andlega séð (og gott betur). Að geta smakkað á bjór í vinnunni er til dæmis eitthvað sem ég tel ómetanlegt! Það er meira að segja nánast skilyrði að smakka eitthvað yfir daginn (þó maður sé nú seint að fara að detta á fyllerí!). Umhverfið er líka eitthvað svo sjarmerandi. Að labba um stóru gerjunartankana, brugggræjurnar, átöppunarvélina og sjá hesta á næsta túni og finna angan af ýmist gerjun, suðu, bjór við átöppun, allt þetta spilar saman í mjög kósý stemningu. Ég get ekki kvartað!

Auglýsingar
Birt í Brugghús, Uncategorized | Færðu inn athugasemd